
Ef við viljum líða vel, er oft fyrsta skrefið að gera eitthvað gott.
Að hjálpa öðrum og sýna góðvild bætir ekki bara líðan þeirra sem fá hjálpina, það styrkir líka okkar eigin vellíðan. Rannsóknir sýna að góðverk virkja umbunarkerfi heilans. Þau geta einnig dregið athyglina frá eigin áhyggjum og þannig minnkað álag.
Góðvild og gjafir, hvort sem þær eru stórar eða smáar, byggja tengsl og auka samkennd. Þetta er lykilþáttur í líðan og stuðlar að sterkari samfélögum. Góðvild getur verið allt frá því að brosa, segja hlý orð, rétta hjálparhönd eða bjóða sætið sitt og alveg yfir í sjálfboðastarf. Við getum líka „gefið“ á þann hátt sem kostar ekkert: tíma, hlustun, þekkingu, stuðning, orku eða einfaldlega að fyrirgefa öðrum þegar þeir gera mistök.
Hugleiðing: Hvaða litla góðverk gætir þú gert í dag?

Vísindarannsóknir benda á að hjálpsemi getur aukið jákvæðar tilfinningar og tilfinningu fyrir tilgangi. Hún byggir upp sjálfstraust, dregur úr streitu og getur hjálpað okkur að finna meiri ró. Sumir sem gefa reglulega af tíma sínum eru jafnvel líklegri til að finna fyrir meiri von og færri einkennum depurðar og kvíða. Til að góðverk hafi jákvæð áhrif á okkar eigin líðan skiptir máli að við veljum sjálf hvernig við hjálpum og að við skynjum að það hafi raunveruleg áhrif og að það styrki tengsl við aðra.
Ef þú vilt líða vel leitaðu að tækifærum til að sýna góðvild.
Hugleiðing: Hvenær hefur þú valið að hjálpa öðrum og fundið að það gaf þér gleði? Hvað skipti mestu máli í þeirri upplifun?
Allir þurfa á góðvild að halda.
Góðvild styrkir tengsl og sterk tengsl eru ein af grunnstoðum vellíðunar. Við getum verið góð við fjölskyldu, vini, samstarfsfólk, nágranna eða jafnvel ókunnuga. Aldur og fjarlægð skipta ekki máli.
Hugleiðing: Hverjum hefur þú sýnt góðvild nýlega? Og hver hefur sýnt þér góðvild?